145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:05]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvernig er forseta innan brjósts að verða vitni að og þurfa að taka þátt í þessari lítilsvirðingu gagnvart þinginu. Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru farnir í kosningar, farnir í kosningaferð og á kosningafundi út á land en þingið á að sitja hér að störfum og ræða helsta mál dagsins, sem er samgönguáætlun, í fjarveru hæstv. innanríkisráðherra.

Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að þingið skuli þurfa að una því og við eigum auðvitað ekki að una því. Nú á auðvitað að gera hlé á þingfundi og ekki boða til nýs fundar fyrr en ljóst er eftir hvaða starfsáætlun við erum að vinna. Það á ekki að bjóða okkur upp á það að ræða samgönguáætlun að fagráðherranum fjarverandi. Það á ekki að bjóða upp á það.