145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Herra forseti. Það er táknrænt fyrir þá óreiðu og óstjórn sem einkennt hefur valdatíma núverandi stjórnarflokka að það mál sem hér er á dagskrá í dag er samgönguáætlun til fjögurra ára þar sem stjórnarmeirihlutinn ákveður hvernig hann ætlar að haga samgönguframkvæmdum á árunum 2015 og 2016, tvö ár aftur í tímann í raun og veru.

Það er auðvitað mjög táknrænt og kaldhæðnislegt til þess að hugsa að nú sé formaður Sjálfstæðisflokksins á kosningaferðalagi að reyna að útskýra það fyrir kjósendum á Austurlandi að Sjálfstæðisflokkurinn sé besti flokkurinn til að stjórna landinu, að hann sé einhvers konar holdgervingur stöðugleika og góðrar verkstjórnar þegar allt annað blasir við.

Við erum komin langt fram úr starfsáætlun þingsins. Við erum að fjalla um ár sem eru löngu liðin og það eina sem maður getur huggað sig við, ef svo skyldi fara að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist aftur til valda hér, er að það verður örugglega stutt kjörtímabil.