145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir kröfur um að forseti fresti fundum áður en lengra er haldið. Hæstv. forseti veit að starfsáætlunin sem var í gildi og unnið hefur verið eftir var niðurstaða samkomulags milli flokkanna. Það er eðlilegt að flokkarnir komi sér saman um einhverja vissu í vinnubrögðum hérna í aðdraganda kosninga vegna þess að þá sitja menn við sama borð. Núna er þetta samkomulag búið, starfsáætlunin er búin. Þá þarf að gera nýja. Það er algjörlega marklaust, og ég hygg að hæstv. forseti viti það í hjarta sínu að það er algjörlega tilgangslaust að halda áfram þingstörfum ef ekkert samkomulag er.

Ein birtingarmynd þess hversu ósanngjarnt það er að vera að vinna hérna með ekkert samkomulag, enga vissu, er sú að forusta Sjálfstæðisflokksins er farin í kosningaferðalag. Hverjir vita eitthvað um þingstörfin? Hverjir hafa valdafræðina í höndum sér þegar kemur að þessu? Augljóslega ekki hæstv. forseti, en mér heyrist hann ekki vita neitt sérstaklega mikið um hvað (Forseti hringir.) á að fara hér fram. Það er kannski einkum og sér í lagi forusta stjórnarflokkanna, hún getur þá skipulagt sig. (Forseti hringir.) Hún getur farið í kosningaferðalög. Það er ósanngjarnt. Aðrir vita ekki neitt.