145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Forseti Alþingis hefur núna vikum saman sagst vera að kalla formenn stjórnmálaflokkanna á fund. Þrátt fyrir að hver vikan eftir aðra hafi liðið hefur ekki tekist að koma á þeim einfalda viðburði að formenn stjórnmálaflokkanna haldi fund. Innt hefur verið eftir því hvaða mál það séu sem ríkisstjórnin óski eftir að fá afgreidd í þinginu. Ekki hefur verið hægt að svara því af hálfu ríkisstjórnar Íslands hvaða þingmál hún þurfi að fá afgreidd. Svo er dagskránni bara haldið áfram út yfir eina áætlun og út yfir aðra, og núna án þess að formenn stjórnarflokkanna séu viðstaddir þinghaldið.

Virðulegur forseti. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Við hljótum að spyrja hvernig þingfundur geti farið fram meðan Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, samgönguráðherra, sem á að vera hér við umræður um samgönguáætlun, eru bara einhvers staðar austur á fjörðum í erindum fyrir eitthvert félag (Forseti hringir.) úti í bæ.