145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:23]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er rétt hjá hv. þingmanni að forseti hefur verið að reyna að beita sér fyrir því að ná utan um þau verkefni sem okkar bíða. Það gerðist með þeim hætti að hér var búin til starfsáætlun sem forseti taldi, og þeir aðrir sem að henni komu, vera fullkomlega raunhæfa miðað við þau verkefni sem við höfðum. Í upphafi síðustu viku var hins vegar orðið ljóst að það mundi ekki takast og við mundum ekki standast starfsáætlun, eins og forseti hafði þó talið að við mundum gera og það með tiltölulega auðveldum hætti. Þá stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika. Þá þurfum við með sama hætti að taka á þeim málum eins og gert var á þeim tíma þegar við vorum að móta starfsáætlunina og reyna að láta hana passa miðað við þau verkefni sem við töldum að fram undan væru. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera núna þessa stundina, eins og forseti hefur margáréttað.

Þess vegna er það rétt sem hv. þingmaður segir, að ræður forseta eru að mörgu leyti endurtekið efni vegna þess að forseti stendur frammi fyrir nákvæmlega þeirri stöðu sem hann stóð frammi fyrir fyrir nokkrum vikum, taldi sig þá hafa náð utan um verkefnin. Og það var okkar mat, hygg ég, í forsætisnefnd og meðal þingflokksformanna og forustumanna stjórnmálaflokkanna, en það hins vegar tókst ekki. Þá þurfum við einfaldlega að horfa framan í þann veruleika og takast á við hann.