145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að útskýra hér hvernig hann hefur reynt að ná utan um þinghaldið síðustu vikur. Svo langt sem það nær, því að ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum sem hefur verið að fylgjast með umræðunum, hvort sem er hér í dag eða í síðustu viku, að það stendur ekki á þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar þegar kemur að því að ljúka þessu þingi. Ég veit ekki heldur til þess að það standi neitt á formönnum flokka stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Þetta snýr allt upp á hv. þingflokksformenn og formenn stjórnarflokkanna. Þess vegna verður hæstv. forseti að horfast í augu við að það þarf að setja pressuna á þá. Það verður ekki gert nema með því að fresta fundi (Forseti hringir.) og halda ekki fundi hér í þessum sal fyrr en þessi mál eru komin á hreint.