145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gagnlega og mannúðlega fyrirspurn um málefni og framsal íslenskra fanga. Varðandi fyrstu fyrirspurnina ber að geta þess að heimilt er, að vissum lagaskilyrðum uppfylltum, um alþjóðlega samvinnu við fullnustu refsidóma, að fullnægja viðurlagaákvörðun frá erlendum dómstól á Íslandi þrátt fyrir að afplánunarsamningur sé ekki fyrir hendi. Slíkt er þó alltaf háð samþykki beggja ríkja og ákvörðun um beitingu þeirrar lagaheimildar er í höndum innanríkisráðherra sem fer með flutning dæmdra manna í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Varðandi það hvort utanríkisráðuneytið hafi komið á samningi á milli Íslands og Brasilíu er varðar framsal íslenskra fanga þá er það þannig að fyrri ríkisstjórn samþykkti í maí 2012 að utanríkisráðherra skyldi undirbúa samninga um flutning dæmdra manna og fullnustu refsinga. Sérstök áhersla var lögð á ríki þar sem mannréttindi íslenskra fanga væru ekki tryggð. Ísland hefur enga slíka tvíhliða samninga gert en er aðili að Evrópuráðssamningnum frá 1983 um flutning fanga; 21 ríki utan Evrópu er aðili að þessum samningi, en Brasilía er ekki þar á meðal og ekkert Norðurlanda hefur gert slíkan samning við Brasilíu.

Afplánunarsamningur verður ekki gerður án samráðs við innanríkisráðherra sem fer með málefni fanga og flutning dæmdra manna, en hins vegar er hafinn undirbúningur að slíkum samningi við Brasilíu. Ég ber þó nokkrar væntingar til þess að framvinda málsins verði nokkuð greið og örugg.