145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál hér upp og ráðherranum fyrir svörin. Ég hygg að það sé geysilega mikilvægt að ráðuneytin starfi saman að þessu verkefni, innanríkis- og utanríkisráðuneytið, að því að semja við Brasilíu í þessu tilfelli um þessi skipti. Það verður ekki fram hjá því horft að fórnarlömbin í þessum málum eru oft og einatt konur, ekki síst ungar konur, sem síst af öllu eru höfuðpaurarnir í þeim glæpum sem þær tengjast eða verða fórnarlömb í og verða að afplána vegna. Ég hvet ráðherrann til þess að halda áfram þessu starfi og ljúka þessum samningum svo fljótt sem verða má.