145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft þarfri umræðu, mannréttinda- og mannúðarumræðu. Það sem mér leikur forvitni á að vita og þætti fróðlegt að heyra í framhaldinu er þetta: Það er auðvitað gott að vita af því að samningar um framsal og flutning íslenskra fanga sem lenda í fangelsum í Brasilíu eru fyrirhugaðir. Það skiptir máli að fólk sé tekið úr óviðunandi aðstæðum þar sem fangelsi eru öðruvísi starfrækt en hér. En það væri líka fróðlegt að fá að heyra í þessari umræðu hvernig Íslendingar eru í stakk búnir til að gera þetta. Það er töluverður fjöldi íslenskra fanga erlendis sem þetta gæti átt við um, fólk sem við vildum fara að taka hingað heim. Hvernig eru íslensk fangelsismálayfirvöld í stakk búin til að taka við föngum í þessum aðstæðum? Er við því að búast (Forseti hringir.) að við séum tilbúin og höfum góðar og gildar aðstæður til að taka við íslenskum föngum ef þetta er umtalsverður fjöldi, 10–15 manns eins og ég held ég hafi séð á plöggum?