145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framsal íslenskra fanga.

790. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það gleður mig mjög að í kjölfar þessarar fyrirspurnar hefur hæstv. utanríkisráðherra hafið samráð við innanríkisráðuneytið um að gera nauðsynlegan samning til að hægt sé, í þeim tilfellum sem upp á bjóða, að óska eftir framsali íslenskra fanga úr fangelsum erlendis; og í þessu tilviki er um Brasilíu að ræða. Þar eru frægustu fangelsi heims og meðal þeirra verstu. Ég vil líka skora á hæstv. ráðherra að beita öllu afli utanríkisþjónustunnar til að fá þá stúlku sem hér er um að ræða náðaða. Ég veit sjálfur af reynslunni að utanríkisþjónustan hefur mikið afl í svona málum. Á minni tíð í ráðuneytinu, þar sem rökstuddur grunur lék á um að fangar væru að ósekju dæmdir, og, a.m.k. í öðru tilvikinu, að lögreglan í því landi hefði jafnvel sjálf átt hlut að máli, þá sendum við sendiherra sem lá þar við þangað til það tókst að fá viðkomandi lausan úr haldi og heim til Íslands, í tveimur tilvikum.

Ég rifja það líka upp að svipað mál kom upp með íslenskar stúlkur í Tékklandi, sem ég veit ekki betur en að séu núna, fyrir tilverknað utanríkisþjónustunnar, á leið heim eða komnar heim til afplánunar. Það skiptir máli að gera sér grein fyrir því að yfirleitt er um að ræða ungar stúlkur, oft kornungar, sem hafa lent í ógæfu, hafa lent í neyslu og verða fórnarlömb glæpamanna. Þær eru beittar misneytingu. Lögreglumönnum sem ég hef talað við, bæði hér heima en líka hjá Europol, ber saman um að það besta í slíkri stöðu sé í fyrsta lagi að lögreglumaður frá heimalandinu fái strax að tala við viðkomandi vegna þess að það leiðir oft til mikilla og miklu betri upplýsinga um höfuðpaura en í öðru lagi leiðir það til þess að samkomulag tekst um að milda refsinguna og leyfa afplánun í heimalandi. Það skiptir rosalega miklu máli í þessum tilvikum, oft er þar um (Forseti hringir.) líf og dauða að tefla og við eigum að láta okkur mannréttindi allra varða, ekki síst fanga.