145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[15:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hefur það verið upplýst að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins eru á kosningaferðalagi austur á landi, en hér stendur þingfundur yfir og annar þessara manna á samkvæmt stjórnarskipunarlögum að svara hér fyrir mál sem eru á dagskrá í dag. Samkvæmt 65. gr. þingskapa, sem eru lög í landinu, er þingmönnum skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni. Og forseti úrskurðar hvort nauðsyn sé fyrir hendi.

Ég vil spyrja forseta: Hefur hann kannað nauðsyn þess að formaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins séu á kosningaferðalagi á sama tíma og kosningabarátta er ekki hafin? Þessir flokkar hafa ekki hirt um að ljúka málum hér í þinginu til þess að gefa öllum flokkum færi á því að hefja kosningabaráttu þannig að jafnræðis sé gætt. Hefur forseti úrskurðað um nauðsynina? Hafi hann ekki gert það krefst ég þess að hann geri það án tafar og fylgi þá fordæmi fyrrverandi forseta, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, sem hélt ekki þingfundi meðan ég var á kosningaferðalagi sem formaður Samfylkingarinnar. Ég krefst þess að því fordæmi verði fylgt og að forseti standi vörð um rétt minni hluta þings nú eins og þá.