145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[15:56]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Minni hlutinn eða stjórnarandstaðan hefur mikið lagt á sig síðustu mánuði til þess að endurreisa virðingu Alþingis eftir þann hnekki sem virðing Alþingis beið í tíð fyrrverandi stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili þegar hér var viðhaft málþóf, fundatæknilegar brellur, fjarvera og alls kyns látalæti með orðbragði og framgöngu sem kom alvarlega niður á virðingu Alþingis. Sú stjórnarandstaða sem hér er að störfum núna hefur virkilega lagt sitt af mörkum þó að það hafi kannski ekki heyrt henni til að endurreisa virðingu Alþingis þá var það gert með málefnalegu starfi og góðri vinnu. En það er nú kannski til fullmikils mælst núna að þessi stjórnarandstaða haldi þinginu að störfum í fjarveru stjórnarmeirihlutans. Þá er (Forseti hringir.) farið að ætlast til fullmikils af stjórnarandstöðunni sem nú situr. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni, (Forseti hringir.) hér þarf núna að fylgja þingfordæmum og virða 65. gr. þingskapalaga.