145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

umræða um samgönguáætlun og fjarvera innanríkisráðherra.

[16:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að taka undir með þeim félögum mínum, hv. þingmönnum, sem hafa komið hér til þess að kvarta yfir þessari fundarstjórn og hvernig staðan á þinginu er í dag. Það er í raun alveg ótrúlegt að við skulum standa í þessum sporum í dag því að eitt af því fyrsta sem við fengum sem nýir þingmenn vorið 2013 var skýrsla forseta Alþingis um vantraust á Alþingi, hvers vegna svona mikið vantraust væri í samfélaginu í garð Alþingis. Meðal annars kom fram í niðurstöðum að það væri hringlandaháttur og stefnuleysi á Alþingi og líka óstjórn og ráðaleysi, sundrung og lítil samvinna. Mikil áhersla var lögð á það, þegar við lögðum af stað í þetta kjörtímabil, að við ættum að reyna að laga þetta og vinna saman að því að efla virðingu Alþingis. Hér stöndum við í dag, þingmenn minnihlutaflokkanna á þingi, og tölum um fundarstjórn forseta vegna þess að stjórnarmeirihlutinn sýnir þinginu algjöra vanvirðingu; og er ekki bara að sýna þinginu vanvirðingu heldur líka almenningi í landinu. Þessu verður að ljúka. Ég skora á hæstv. forseta að nota nú hamarinn og berja vel í borðið (Forseti hringir.) og segja: Hingað og ekki lengra. Þessu verður að linna.