145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er hægt að segja ýmislegt um störf þingsins þessa síðustu daga. Auðvitað er kunnara en frá þurfi að segja að hér er engin starfsáætlun og óljóst hvernig undið verður ofan af þessu þingi og hvenær verður hægt að fara héðan og hefja kosningabaráttu. En þrátt fyrir að við ræðum þetta innan lands er ýmislegt að gerast úti í hinum stóra heimi. Líkt og svo oft áður hefur fulltrúum í hv. utanríkismálanefnd borist skeyti þar sem er vakin athygli á stöðu mála víðs vegar í heiminum og nú hefur okkur borist bréf sem er stílað á hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formann hv. utanríkismálanefndar, og aðra nefndarmenn í hv. utanríkismálanefnd þar sem athygli okkar er vakin á slæmri stöðu pólitískra fanga í hinu hersetna ríki Vestur-Sahara.

Alþingi ályktaði vorið 2014 að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa þessa lands væri virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. utanríkisráðherra sem og fulltrúi Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa tekið þessi mál upp svo eftir er tekið. Nú berast okkur fréttir af því að pólitískir fangar sæti barsmíðum í fangelsum (Forseti hringir.) í Marokkó. Þetta er eitthvað sem ég tel að okkur beri skylda til að vekja athygli á, ekki bara hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) heldur verðum við þingmenn á þeim vettvangi þar sem við getum alltaf að taka þetta mál upp og minna á.


Efnisorð er vísa í ræðuna