145. löggjafarþing — 163. fundur,  4. okt. 2016.

störf þingsins.

[15:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það liggur beinast við að tala um ástandið í þinginu. Ég ætla ekki að nota mínar tvær mínútur hér til að ræða það. Mig langar hins vegar að ræða ástandið í Póllandi. Í gær lögðu tugþúsundir manna og kvenna niður vinnu. Konur lögðu niður vinnu alls staðar í Póllandi og pólskar konur úti um allan heim lögðu niður vinnu að íslenskri fyrirmynd. Fyrirmyndin að þessum kvennafrídegi var íslenski kvennafrídagurinn 1975. Ástæðan fyrir því að pólskar konur lögðu niður vinnu í gær, tugþúsundir manna úti um allt Pólland og allan heim voru í samstöðumótmælum, er fyrirætlanir pólskra stjórnvalda um að leggja blátt bann við þungunarrofi, meira að segja þegar fóstur stefnir lífi móður í hættu, þegar það er með mjög alvarlega genagalla og þar fram eftir götunum, og þótt þungun sé afrakstur nauðgunar, jafnvel sifjaspella. Þessar áætlanir eru mjög alvarlegar. Það brýtur gífurlega á mannréttindum kvenna, friðhelgi kvenna, sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Í ljósi þessa og þess að fyrirmynd þessa gjörnings pólskra kvenna kemur frá Íslandi ákvað ég að skrifa opið bréf til pólska þingsins sem ég afhenti sendiherra Póllands í dag. Undir það skrifuðu 34 íslenskir þingmenn úr öllum flokkum. Mig langar sér í lagi að þakka þeim fyrir að hafa séð að meira er í húfi en eitthvert flokkapot sem er í gangi á þinginu þessa dagana. Ég þakka þeim þingmönnum og hæstv. ráðherra sem ákváðu að leggja nafn sitt við þetta bréf til að stuðla að mannréttindum, stuðla að kvenréttindum í heiminum, (Forseti hringir.) og til að segja Póllandi að við séum að fylgjast með.


Efnisorð er vísa í ræðuna