145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get því miður ekki orða bundist. Hér var fundur formanna flokka sem sæti eiga á Alþingi í gær til að ræða þinglok. Það var engin niðurstaða á þeim fundi. Það er engin hugmynd um það hjá stjórnarflokkunum, virðist vera, hvernig eigi að ljúka þinghaldinu. Hæstv. forseti ákvað af þessum sökum að slíta fundi í gær og gefa stjórnarmeirihutanum þar með tækifæri til þess að reyna að koma sér saman um hvernig standa eigi að lokum þinghaldsins, en sá tími hefur því miður ekki verið nýttur. Hér mætum við því enn og aftur til þingstarfa, starfsáætlun er útrunnin, við höfum ekki hugmynd um hver forgangsmál meiri hlutans í þinginu eru og við erum í algjörri óvissu um framhald þingstarfa. Mér finnst það leiðinlegt því að hér hefur verið reynt að standa málefnalega að málum, bæði í vor og síðan frá því í ágúst. Við höfum lagt áherslu á að nálgast málin málefnalega og mér finnst leitt ef meiri hlutinn ætlar að bregðast því trausti sem við höfum lagt á hann við að reyna ljúka málum þannig að einhver bragur sé að og að við ætlum að stefna þinginu í þetta óefni. Mér finnst það mjög leitt, herra forseti.