145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvaða hafi breyst frá því að hann sleit þingfundi kl. 18 síðdegis í gær. Þá hafði hann áður frestað þingfundi og síðan slitið fundi vegna þess að það voru engar forsendur til þess að halda umræðunni áfram því að ekki lá fyrir hvað forustumenn meiri hluta þingsins vilja með dagskrá. Við erum löngu komin fram yfir þann tíma sem ætlunin var að ljúka á, loforð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að stytta kjörtímabilið um eitt þing er þegar svikið.

Við hljótum að spyrja virðulegan forseta hvort það hafi eitthvað gerst í millitíðinni sem okkur er ekki kunnugt um. Hefur eitthvað komið fram af hálfu stjórnarmeirihlutans hver sé fyrirætlun hans með þessu fundahaldi, eða hvað það er sem hann vill eða hvort hann hafi einhverja stefnu? Okkur er ekki kunnugt um að neitt hafi breyst frá því að forseti sleit sjálfur fundi kl. 18 í gær því að enginn vissi í hvaða átt skipið átti að sigla.