145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:35]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það eina sem breyst hefur á dagskránni í dag er dagsetningin á dagskrárblaðinu, eins og öllum er kunnugt. Að öðru leyti hefur fátt gerst sem forseta er kunnugt um. Forseti hefur átt samtöl við forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, gert þeim grein fyrir stöðunni og vill ítreka þá skoðun sína að hann telur mjög brýnt að fundur eigi sér stað hjá forustumönnum stjórnmálaflokkanna til þess að reyna að komast að einhverri niðurstöðu í þessu máli. Forseti telur að sú óvissa sem núna er uppi sé óviðunandi. Í ljósi þess að forseti tók þá ákvörðun í gær að fresta fyrst þingfundum um tíma og slíta síðan þingfundi kl. 18, taldi hann engu að síður eðlilegt að hefja þinghaldið í dag í trausti þess að reynt yrði að tala hér saman og komast a.m.k. lengra í umræðum um það hvernig við ætlum að ljúka þessu þinghaldi.