145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við fengum að sjá lista yfir mál í gær sem ríkisstjórnarflokkarnir virtust hafa komið sér saman um að þeir vilji klára. Ef maður fer yfir hann og reynir að reikna út og áætla lágmarskumræðutíma fyrir hvert og eitt mál sem þar er þá sýnist mér við verða hér næstu tvær, þrjár vikurnar, það er einfaldlega þannig. Ef við ætlum að klára þetta þing þurfa menn fyrir alvöru að setjast niður og tala saman. Ég tel að forseti eigi að láta í sér heyra gagnvart formönnum stjórnarflokkanna, að þeir hafi ekki nýtt gærkvöldið betur en raun ber vitni til að reyna að komast til botns í þessu máli. Það eru 24 dagar þangað til gengið verður til kosninga, 24 dagar. Það er fjöldinn allur af framboðum fyrir utan þetta þinghús sem vill fara að komast í kosningabaráttu, fá athygli, komast inn í umræðuna. Á meðan erum við hér, en oddvitar stjórnarflokkanna eru allir einhvers staðar úti í kosningabaráttu. Hér sitjum við hin (Forseti hringir.) og reynum að halda þessu gangandi.

Virðulegi forseti. Þetta er til skammar fyrir Alþingi Íslendinga. (Forseti hringir.) Ég legg til að forseti slíti þessum fundi (Forseti hringir.) og kalli til sín forustumenn stjórnarflokkanna.