145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem hér hefur komið fram um hvað ríkisstjórnin hefur sagt okkur hingað til þykir mér virðulegur forseti vera ansi bjartsýnn á að eitthvað breytist á meðan þingfundum er haldið áfram. Ég gæti endurtekið ræðuna sem við erum búin að halda margsinnis í nokkurn tíma. Ekkert hefur breyst. Komið er á samtali og það er einhver listi sem er augljóslega út úr kortinu. Það eru 24 dagar til kosninga, í vikulokin verða það þrjár vikur. Það fer að hafa áhrif á getu flokkanna til að skipuleggja og taka þátt í kosningabaráttu. Það er mjög alvarlegt, virðulegt forseti, og hvorki þinginu til sóma né þeim vinnubrögðum sem hérna eru stunduð að jafnaði hvað þetta varðar.

Mig langar að spyrja virðulegan forseta: Hvað telur hann að muni breyta viðhorfum ríkisstjórnarinnar í sambandi við þennan margumtalaða lista?