145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:43]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því að forseti þingsins er í mjög erfiðri stöðu núna. Það er eiginlega núna sem reynir á hvort hann dregur taum framkvæmdarvaldsins eða löggjafarsamkomunnar. Forseti Alþingis, við gerum kröfur til þín um að standa núna vaktina fyrir okkur, þingmenn á Alþingi Íslendinga, og taka af skarið. Ég tel að það væri rétt að fresta eða slíta þessum fundi og boða ekki til nýs fundar. Hvort það tekur klukkustund, sólarhring eða viku skiptir ekki máli, við vitum ekkert hvað við erum að gera hér. Þetta eru leiktjöld. Það er ekki verið að vinna. Stjórnarmeirihlutinn mannar ekki nefndir. Ég var á fundi í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun og það voru tveir stjórnarþingmenn mættir þar. Það er staðan. Við getum ekki, virðingar þingsins vegna, látið þetta dampa svona (Forseti hringir.) dag eftir dag.