145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er allt hárrétt sem hér hefur komið fram og algerlega tilefni til að skoða hvort ástæða sé til að fara með málið lengra. Við erum með lengsta þing sögunnar, það er orðið til hér. Hér hefur komið fram hvernig mönnun nefnda er þessa dagana. Ég sat á tveimur fundum í morgun og það varð að fresta fundi í fjárlaganefnd því að ekki var meiri hluti til að taka málið út af hálfu meirihlutaflokkanna. Það var upplýsingafundur hjá allsherjar- og menntamálanefnd þar sem einungis voru mættir tveir meirihlutafulltrúar. Hér er fólk hætt vinnu sinni inni á þingi, eins og komið hefur fram, það er bara komið í kosningabaráttu, í samtal við kjósendur, sem það á auðvitað að vera að gera. En við eigum líka að vera að tala við kjósendur. Það er ekki forréttindamál ríkisstjórnarflokkanna. Það eru örfáir þingmenn meiri hlutans hér í salnum, enn sem komið er að minnsta kosti. En ég virði það við forseta að hafa ákveðið að slíta fundi í gær í ljósi þess að ekkert er að gerast. Ég hefði talið skynsamlegast að gera slíkt hið sama í dag. Þangað til menn koma hér að samtalsborðinu (Forseti hringir.) og gera eitthvað af viti eigum við bara að fresta fundi.