145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:47]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja forseta um hvort hann telji ekki rétt að grípa inn í þegar það er svo í hverri þingnefndinni á fætur annarri að þingmenn stjórnarmeirihlutans sinna ekki störfum sínum. Telur forseti það eðlilegt? Telur forseti að grípa þurfi inn í með einhverjum hætti, ræða það í þingflokkum stjórnarflokkanna? Telur hann það ekki ámælisvert að fella þurfi niður fundi, fresta fundum o.s.frv. vegna þess að stjórnarmeirihlutinn er farinn í kosningabaráttu? Mér finnst ekki ganga annað en að virðulegur forseti grípi inn í þessa stöðu. Það gerðist ekkert hér á mánudag. Það gerðist ekkert hér í gær. Það stefnir í að það gerist heldur ekkert hér í dag. Það hreyfist ekki neitt. Forseti verður að slíta fundi. Við verðum að slíta þessu 145. þingi og ganga til kosninga. Það er óverjandi að niðurlægja þingið með þeim hætti sem hér er verið að gera.