145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er þinginu til minnkunar hvernig ástandið er í þinginu núna, það er mjög dapurlegt. Ég efast ekki um að hæstv. forseti er ekki glaður með að stjórnarmeirihlutinn geti ekki náð neinni niðurstöðu í sínum málum, að ljúka þessu þingi. Mér dettur nú í hug: „Það er engin leið að hætta.“ Það er eins og þessi stjórn vilji ekki sleppa höndum af stjórnartaumunum þar sem hún veit hún mun ekki fá þá í hendurnar aftur. En það verður einhver að hjálpa henni við það, hvort sem það er sálfræðingur eða einhver annar. Það er ýmislegt í gangi úti í kjördæmunum og við vitum að ráðherrar eru að klippa á borða hér og þar og mega ekkert vera að því að vera í þinginu. Ég og hæstv. forseti hefðum átt að vera í Stykkishólmi í dag þar sem Samband sveitarfélaga á Vesturlandi er að funda. Það getur verið að aðrir þingmenn kjördæmis séu þar í góðu yfirlæti. En við sem teljum okkur þurfa að sinna þingstörfum erum hér í dag. Það er ekki bjóðandi fólki að hafa þennan háttinn á. Auðvitað á forseti bara að segja: Ég held engan þingfund (Forseti hringir.) fyrr en niðurstaða er komin í málið hjá þessum stjórnarherrum. Annað er ekki boðlegt.