145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mér finnst verið að kasta steinum úr glerhúsi þegar verið er að gagnrýna mætingu þingmanna. Það er svo sem ósköp eðlilegt að þingmenn sitji ekki undir því rugli sem ég vil kalla svo. Allt á þetta sín fordæmi. (Gripið fram í: Hvaða fordæmi?) Í atvinnuveganefnd var verið að gagnrýna slælega mætingu — ég er alveg tilbúinn að birta mætingarlistann í atvinnuveganefnd í vetur ef menn telja sér til framdráttar að upplýsa mætingu á fundina.

Hér er málefnaleg umræða sniðgengin. Það er önnur hlið á þessum peningi og hún heitir málþóf. Við höfum áður upplifað þetta, á síðasta kjörtímabili skorti ekki umræðuna um það að hér væri málþóf. Fyrir framan okkur liggur dagskrá og á henni er þingsályktunartillaga um fjögurra ára samgönguáætlun, frumvarp um stofnun millidómstigs, frumvarp um almennar íbúðir, frumvarp um vexti og verðtryggingu, frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og frumvarp um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta eru allt stór mál sem talað hefur verið um að ljúka á þessu þingi.

Ég held að við ættum bara að hefja málefnalega umræðu um þessi mál í stað þess að þurfa að verða vitni að því grimma málþófi sem hér er í gangi. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ekkert gerðist hér á mánudag og þriðjudag, forseti hefur ekki viljað hafa þá ásýnd á þinginu sem birtist almenningi (Forseti hringir.) í formi alls þess málþófs sem minni hlutinn stendur fyrir. Við skulum vonast til þess (Forseti hringir.) að það dvíni og við náum að klára þetta. Það er full ástæða til þess.