145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Satt að segja er heillandi að fá upp í ræðustól hv. þm. Jón Gunnarsson og heyra hann ásaka aðra þingmenn um málþóf, manninn sem einn manna í þessum sal hefur orðið svo uppiskroppa með hvað hann ætlaði að segja úr þessum stól að hann hélt sömu ræðuna orðrétt tvisvar. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Aldrei höfum við gengið þá leið sem hv. þm. Jón Gunnarsson taldi sér sæma að gera hér á síðasta kjörtímabili. Grundvallaratriðið í þessu máli er að við viljum að nákvæmlega sömu viðmið gildi og á síðasta kjörtímabili. Eftir að starfsáætlun er lokið á síðasta þingi fyrir kosningar verða engin mál afgreidd nema þau sem eru í sátt. Það leiðir af eðli máls því að tíminn er búinn.

Það að halda áfram þingfundum er brot á meginreglum lýðræðisins og jafnræði flokka til að heyja kosningabaráttu. Þegar mikilvæg mál, eins og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, eru rædd í fjárlaganefnd í sex klukkutíma samtals og aðeins tveir þingmenn stjórnarflokkanna viðstaddir, sem báðir eru á leiðinni út, er það ekki eðlileg þingleg meðferð. Það er skammarlegt fyrir stjórnarflokkana (Forseti hringir.) og sýnir að hér er verið að búa til leiktjöld. Hér er engin alvöruvinna í gangi, það er bara verið að halda stjórnarandstöðunni frá því að heyja málefnalega kosningabaráttu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)