145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Stjórnarandstaðan hefur staðið við sitt en allt virðist benda til að stjórnarflokkarnir ætli ekki að gera það. Hér var á vordögum gengið farsællega frá afgreiðslu fjölmargra mála á þeirri forsendu að efnt yrði til stutts þings í lok ágúst og með loforði Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að þetta kjörtímabil yrði stytt um eitt þing. Nýtt þing átti að hefjast annan þriðjudag í september, við erum komin fram í október. Nú er búið að afgreiða nær öll þau mál sem stjórnarmeirihlutinn lagði þá áherslu á og þá er bara kominn nýr bunki af málum, mörg mjög vanreifuð og algerlega óundirbúin fyrir afgreiðslu í þinginu.

Virðulegur forseti. Ég veit engan styttri frest til kosningabaráttu en þrjár vikur í vestrænum (Forseti hringir.) lýðræðisríkjum. Á laugardaginn eru þrjár vikur til kosninga og ég spyr: Á að gefa hér skemmri tíma en nokkurs staðar annars staðar til að stunda lýðræðislega kosningabaráttu?