145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[11:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekkert upp á stjórnarandstöðuna að klaga í þingstörfum á þessu stutta haustþingi sem átti að vera. Hins vegar standa stjórnarliðar og hæstv. ríkisstjórn ekki við orð sín. Núna er þolinmæðin úti og ég bið hæstv. forseta að grípa í taumana.

Það er allsendis óásættanlegt að stjórnarandstaðan mæti á þingfundi til að vinna vinnuna sína á meðan stjórnarliðar, hv. þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eru úti í kjördæmunum til að tala við kjósendur. Það er sniðugt skipulag á kosningabaráttu hjá stjórnarflokkunum, þykir mér, að halda stjórnarandstöðunni við vinnu í þinginu á meðan þeir skottast út í kjördæmin til að tala við (Forseti hringir.) kjósendur. Það þurfti að fresta fundi, það var ekki hægt að taka út stjórnarmál, meirihlutanefndarálit í fjárlaganefnd, af því að meiri hlutinn mætti ekki.