145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[11:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er stjórnarandstaðan sökuð um málþóf. Málþóf er fúkyrði yfir umræður sem taka langan tíma. Stundum taka þær langan tíma af ómálefnalegum ástæðum en stundum af málefnalegum ástæðum. Þegar sífellt þarf að vera að rífast yfir því sjálfsagða atriði að fá að vita hvernig meiri hlutinn sér fyrir sér að halda áfram þessu þingi er það málefnaleg ástæða fyrir því að fólk kemur upp í hrönnum til að benda á þá staðreynd og krefst úrbóta strax. Það er samdóma álit allra, þar á meðal virðulegs forseta og að mínu viti allra þingmanna meiri hlutans, þeirra sem ég hef nokkurn tímann heyrt tala um það, að þingstörfin hafi verið með afbrigðum málefnaleg og góð í það minnsta fram á þá viku sem starfsáætlun átti að ljúka, í lok september. Það er samdóma álit allra. Svo þegar starfsáætlun lýkur og hér er farið að kvarta undan því að haldið sé áfram er það kallað málþóf.

Virðulegi forseti. Ef þetta er málþóf er lexían sem við erum búin að læra hér sú að málefnalegar umræður frá vori fram yfir starfsáætlun lengsta þings Íslandssögunnar séu slæm hugmynd. Að við hefðum átt að stunda málþóf frá vori. Það er lexían, vegna þess að ef við gerum það ekki verður lengsta þing Íslandssögunnar notað til að halda stjórnarandstöðunni frá kosningabaráttunni. (Forseti hringir.) Vill virðulegur forseti að það verði arfleifð þessa þings?