145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[11:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staðan er sú að nú hefur þetta þing, 145. þing, lokið öllum þeim mikilvægu málum sem rædd voru í apríl. Búið er að ljúka húsnæðismálunum, búið er að ljúka haftamálunum að mestu og hér ættum við að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft og hætta svo. Það er eina málið sem stendur út af, eitt þingmál, að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft.

Virðulegi forseti. Íslandssögunni lýkur ekki 29. október. Það er ekki þannig. Öll þau mál sem eru hér á dagskrá og sem eru á listanum langa frá núverandi ríkisstjórn eru þeirrar gerðar að nýtt þing getur unnið úr þeim. Það er þannig. Nýtt, lýðræðislega kjörið þing sem hefur raunverulegt umboð til þess, sem núverandi, fráfarandi ríkisstjórn hefur sannarlega ekki. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það á að ljúka þessari einu atkvæðagreiðslu og senda þingið heim þannig að allir sitji við sama borð í kosningabaráttu fyrir kosningarnar að þessu sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)