145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:26]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill þakka hv. þingmanni góð orð og árnaðaróskir til okkar þingmanna og Alþingis. Forseti vill þakka hv. þingmanni fyrir hennar mikilvæga framlag í störfum Alþingis á undanförnum árum. Það væri sennilega synd að segja að við hv. þingmaður höfum alltaf verið sammála og stundum verið ansi fjarri því. Við höfum tekist á og það er eðlilegt í stjórnmálum. Stjórnmál endurspegla mismunandi skoðanir fólks og ekkert nema eðlilegt um það þegar þingmenn með ólík sjónarmið, ólíkar skoðanir, ólíka hugmyndafræði takast á. Ég hef líka starfað með hv. þingmanni í kjördæmi okkar, Norðvesturkjördæmi. Þar hefur okkur auðnast að snúa saman bökum í miklu fleiri málum en hinum og stundum haft góðan árangur, stundum gengið miður eins og gengur. Forseti vill þakka það góða samstarf í gegnum tíðina, þakka þann tíma sem við höfum átt saman í stjórnmálum jafnt í átökum sem samherjar.