145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni frétt sem ég sá í gær á mbl.is og RÚV um meint dýraníð, þar sem einstaklingur á að hafa misþyrmt lambi. Ég veit ekki hversu áreiðanlegar fréttirnar eru en eitthvað hefur eflaust átt sér stað þarna. Þingið samþykkti betri löggjöf um dýravernd, ég held að það hafi verið 2013, þannig að ég held að löggjöfin eigi að vera nokkuð góð. Auðvitað voru það vonbrigði að við skyldum ekki ná fullnaðarsigri þegar við vorum með búvörusamningana undir.

Ég hef áhyggjur af því að dýraníð viðgangist og að við náum ekki utan um það vandamál. Í þessu tilfelli þurfa vitni að gefa sig fram og lögreglan þarf að rannsaka málið. Einstaklingur er grunaður um verknaðinn og enginn veit í raun hver hann er, verið er að úthúða honum á netinu; og ekki veit ég hverju það skilar. En það þarf að rannsaka málið, það þarf að ná í viðkomandi og það þarf að bjóða honum aðstoð. Fólk sem misþyrmir dýrum — þetta er ekki eins og að labba inn í söluturn og stela kókflösku eða eitthvað. Það er eitthvað mikið í gangi þarna. Skilaboðin sem við sendum, löggjafarvaldið, hvernig við refsum eða aðstoðum þá sem brjóta svona af sér, það þarf líka að vera alveg á hreinu hvernig við gerum það. Ég fæ sting í magann þegar ég les svona fréttir og því miður eru þær allt of algengar. Stundum tölum við eins og þetta sé vandamál sem eiginlega tíðkist ekki og kannski hefur það jafnvel verið þannig að við skiptum okkur ekki af því þó að einhverjum hestum sé misþyrmt o.s.frv. Það er ekki þannig. Þetta er mjög alvarlegt vandamál.

Mér finnst vont að fréttir af þessu máli eru á reiki. Jafnvel var grunur um að lamb sem hafði verið misþyrmt hefði verið urðað. Það fannst mér fréttnæmt í sjálfu sér. (Forseti hringir.) Svo kom í ljós að það var ekki rétt. Það er mikilvægt að fréttir af þessum málum séu skýrar. En ég ætla rétt að vona að lögreglan og héraðsdýralæknir (Forseti hringir.) séu að rannsaka þetta mál og reyna að komast til botns í þessu vegna þess að þetta er grafalvarlegt.


Efnisorð er vísa í ræðuna