145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir falleg orð í garð þingsins og framtíð þess. Ég vil lýsa því yfir að það verður söknuður að henni af þessum vettvangi, baráttukonu fyrir landsbyggðina og fyrir róttækum umbótamálum. Ég á eftir að sakna hennar ef ég verð kjörin aftur inn á þing, sem ég ætla rétt að vona.

Ég vil minnast á að á mánudaginn var áskorun til pólska þingsins send frá þingmönnum hér varðandi lagasetningu um bann við fóstureyðingum og pólsk stjórnvöld hvött til að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt kvenna og lýst þungum áhyggjum yfir þeirri lagasetningu sem þar liggur fyrir um að banna fóstureyðingar. Ég vil lýsa því hér yfir að ég styð hjartanlega þessa ályktun þingmanna. Ég var því miður ekki í þinginu og þetta fór því fram hjá mér og ég var of sein að vera með á þessari áskorun. En við þurfum auðvitað að standa vörð um þau réttindi kvenna sem náðst hafa hvar sem er. Það er mikil afturför ef pólska þingið ætlar að banna fóstureyðingar. Þetta eru mannréttindi, að virða sjálfsákvörðunarrétt kvenna um líkama sinn.

Það eru víða fordómar og afturhaldsöfl sem við þurfum að gjalda varhuga við og standa með öðrum þjóðum, vinaþjóðum okkur og hvar sem er í heiminum, í baráttu þegar slíkar gerræðislegar ákvarðanir eru uppi á þjóðþingum annars staðar í heiminum. Þjóðþing Íslendinga á að standa með pólskum konum í mannréttindabaráttu þeirra í þessum efnum og ég styð því þessa áskorun hjartanlega.


Efnisorð er vísa í ræðuna