145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur málefni, og þó eitt sérstaklega, sem ég hef tekið eftir að hefur tilhneigingu til að afmyndast í umræðunni. Fólk hefur tilhneigingu til að nálgast málefnið út frá kolröngum forsendum og tefla fram staðreyndum sem eru rangar. Einn slíkur málaflokkur eru útlendingamál í víðum skilningi.

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að kannski þurfi að herða reglur gagnvart hælisleitendum sem koma hingað í ákveðnum tilgangi. Þar birtist eitt af þeim mörgu vandamálum sem geta orðið til í málaflokknum, þ.e. þegar mikið álag verður á kerfi okkar. Þá heyrir það til undantekninga að umræðan í kjölfarið verði yfirveguð og byggð á staðreyndum og sömuleiðis heyrir til undantekninga að ekki blossi upp mikil alda haturs og úlfúðar sem þá byggist á sleggjudómum, fordómum og einföldu þekkingarleysi; þekkingarleysi á lögunum, þekkingarleysi á því hvernig hlutirnir virka í dag, hvernig þeir eru áætlaðir í framtíðinni og sömuleiðis um meira eða minna allt sem lýtur að málaflokknum.

Í ljósi þess að við búum við þær aðstæður að flóttamannakrísa er í heiminum og í ljósi þess að þessi málaflokkur hefur verið áberandi upp á síðkastið langar mig að leggja ríka áherslu á það að á honum verði tekið af yfirvegun, að ekki verið farið í sleggjudóma — það má hver sem er taka það til sín sem vill og út frá hvaða sjónarmiði sem er. Þessi málaflokkur er viðkvæmur, við erum að tala um raunverulegt fólk, í alvörunni.

Það er mikilvægt að menn komi fram með hliðsjón af staðreyndum og þekkingu á málaflokknum. Þekkingu á málaflokknum öðlast maður ekki með því að lesa einfaldlega fjölmiðla. Maður þarf að komast inn í málaflokkinn til þess að skilja hann almennilega. Ég tek eftir því aftur og aftur að sleggjudómarnir byggjast á vanþekkingu sem ekki er hægt að bæta upp með því að lesa blöðin og hafa skoðanir úti í bæ. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt þannig. Það þarf að kynna sér málaflokkinn djúpstætt og það þarf að ræða við fólk sem hefur skoðanir á honum. Við hljótum öll á einhvern hátt að vilja vel.


Efnisorð er vísa í ræðuna