145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og við ræddum fyrr á þessum degi frestaði forseti Alþingis þingfundi síðdegis í gær vegna þess að engar forsendur voru fyrir því að halda þingfundinum áfram eða umræðum á honum. Í framhaldi af því sleit hann þingfundi um kl. 18 í gær vegna þess að þá voru heldur ekki neinar forsendur fyrir því að halda þingfundinum áfram. Umræðan var síðan ekki heldur hafin í morgun vegna þess að í morgun voru enn engar forsendur fyrir því að halda umræðu áfram eða þingfundi áfram meðan engar áætlanir voru um það með hvaða hætti ætti að ljúka hér störfum. Ég hlýt þess vegna að spyrja núna hvort eitthvað hafi breyst frá því fyrir hádegi í morgun, hvort hér liggi eitthvað fyrir um framhald starfanna, áætlun, samkomulag eða eitthvað slíkt sem gefi tilefni til að halda fundi áfram nú frekar en í morgun eða síðdegis í gær.