145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Maður veltir fyrir sér þegar staðan er eins og hún er, að enginn samningsvilji er hjá forustumönnum stjórnarflokkanna, að kannski er engin ástæða til þess að semja um nokkurn skapaðan hlut. Kannski ætti maður frekar að hvetja hæstv. forseta til þess að tryggja að þau mál sem eru á dagskrá þingsins fái eðlilega þinglega meðferð, að ekkert sé afgreitt hér í einhverjum flýti og að menn taki sér bara þann tíma sem þeir þurfa til þess að fara yfir þau mál sem liggja fyrir þinginu. Það eru nógu margir hér innan dyra sem ekki eru í kosningabaráttu, eins og t.d. ég. Ég get verið hér og sinnt mínum störfum alveg fram að kosningum. Mér er það bæði ljúft og skylt. Það er engin ástæða fyrir mig til þess að fara í einhverjar samningaviðræður. Það er engin ástæða fyrir mig til að reyna að flýta þeim málum sem eru á dagskrá þingsins. Af hverju ætti það að vera? Hér kemur nýr meiri hluti inn eftir næstu mánaðamót. (Forseti hringir.) Hann tekur til starfa og hann hlýtur bara að halda áfram (Forseti hringir.) með þau mál sem liggja til grundvallar, og flytur ný mál fyrir nýju þingi. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er, ef menn ætla að taka (Forseti hringir.) einhverja ákvörðun hér, virðulegur forseti, þá á bara að vanda sig við þau mál sem (Forseti hringir.) fram undan eru og fara sér í engu óðslega í þeim efnum.