145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að taka það fram að hér eru þingmenn sem ekki eru í framboði og ætla sér ekki í kosningabaráttu, en ég ætla mér í kosningabaráttu fyrir flokkinn minn. Mig langar til að inna ýmis störf af hendi til þess að hjálpa flokknum mínum við að bæta þingstörfin vonandi á næsta kjörtímabili. Ég kemst ekki í það fyrr en þessu þingi lýkur. Það hefur mjög raunveruleg áhrif á suma þingmenn, einnig þá sem eru ekki að bjóða sig fram til þings, að þingið skuli dragast svona á langinn.

Fyrir utan það er bara ekki í lagi að hæstv. ráðherrar séu í kosningabaráttu á meðan aðrir eru hér að vinna. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki lýðræðislegt. Það er ekki á nokkurn hátt í lagi. Ég sé ekki hvers vegna það er svona erfitt að koma saman og reyna að ræða þetta af einhverri alvöru. Ég skil það virkilega ekki. Ég fatta ekki alveg hvaða hagsmunir það eru aðrir en þeir að halda þinginu í gíslingu, eins og minnst hefur verið á, og frá kosningabaráttu. Það er einu hugsanlegu hagsmunirnir sem ég get séð að þessi vitleysa þjóni, vegna þess að þetta er vitleysa. Það þarf ekkert að vera svona.