145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni. Ég held að það sé afar mikilvægt að við höldum ekki þingfundi á meðan við vitum ekki hvernig á að lenda málum og ljúka þessu þingi. Stjórnarandstaðan hefur ævinlega verið tilbúin að eiga samtal við stjórnarliða, hvort sem það eru formenn þingflokka eða formenn stjórnarflokkanna. Um leið og símtalið kemur og fundur er ákveðinn erum við mætt á staðinn. Það er hins vegar enginn að ræða við okkur núna og það er rétt hjá hæstv. forseta að málið mun ekki leysast nema með samtölum. Kannski þurfa formenn stjórnarflokkanna að byrja á að tala saman en ég óska eftir því að við þingmenn séum ekki látin gjalda fyrir það að okkur sé haldið hér í tómri vitleysu, (Forseti hringir.) leyfi ég mér að segja, á meðan þeir tala ekki saman sem fara fyrir ríkisstjórninni.