145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því oft þegar upphefjast svona fundarstjórnarhrinur svokallaðar að fátt er um svör. Það er staðreynd sem virðist óumdeild af virðulegum forseta eða nokkrum öðrum að hér muni ekkert fara áfram fyrr en forsvarsmenn flokkanna eru búnir að tala saman um framhald þingsins. Þetta er staðreynd. Önnur staðreynd er sú að hæstv. ráðherrar eru farnir í kosningabaráttu úti á landi. Það er staðreynd.

Með hliðsjón af þessum tveimur staðreyndum er auðséð að það sem þarf að gerast núna er að forustumenn flokkanna tali saman til að finna út úr því hvernig þingið geti lokið störfum og allir farið í kosningabaráttu. Þetta er staðreynd og hún óumdeild eftir því sem ég fæ best séð.

Vissulega kemur hingað einn og einn þingmaður stjórnarmeirihlutans og er með sína stæla eins og venjulega. Það verður bara að hafa það, ekkert við því að gera, en það sem ég átta mig ekki á er afstaða virðulegs forseta. Hvers vegna lætur hann þetta viðgangast? Hvers vegna eru hér haldnir fundir og ríkisstjórninni haldið í þeirri trú að hér sé hægt að trukka allt í gegn á valdinu einu saman frekar en einfaldlega tala saman?