145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er orðið ansi súrt ástand hérna. Við erum eins og biluð grammófónplata að ræða um sömu hlutina aftur og aftur, og ekki skemmtiefni fyrir neinn. En það er svo sorglegt að þjóðþing okkar sé í þessari stöðu. Það hefur verið vitað frá því í vor að það ætti að kjósa í haust og menn eru alltaf á byrjunarreit, eru að fara að tala saman, fara yfir málin, skoða þau frá þessum og hinum hliðum. Maður hélt nú að það losnaði eitthvað um þrýstinginn eftir að formaður Framsóknarflokksins var kosinn. En sama stíflan virðist vera í gangi hjá þessari ríkisstjórn áfram. Ég segi ekki að það þurfi að fá drullusokk eins og venjulega er fenginn til að losa stíflur, en það verður að fara að gera eitthvað í þessum málum til að losa þessa stíflu hjá þessari ríkisstjórn. Hún verður að fara að taka sig saman í andlitinu og pakka saman, því að hennar tími er liðinn. Stundaglasið er tómt. Það er tómt, það er ekki að tæmast, það er tómt. Við verðum að fara að ljúka þessu því að við erum að fara að hefja kosningar. Og við í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) viljum líka fá að komast út til fólks og tala við fólk. Það er ekki bara einkamál stjórnarmeirihlutans að geta verið hér út og suður alla daga.