145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Allt á þetta sér einhver fordæmi. Þrátt fyrir góð fyrirheit og yfirlýsingar um að minni hlutinn sé tilbúinn að eiga hér samstarf og samtal þá vitum við að veruleg andstaða er í hópi þeirra við ákveðið mál sem stjórnarmeirihlutinn, lýðræðislegur meiri hluti hér í þinginu, leggur áherslu á að koma í gegn. Ég vil nefna breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem er algjört grundvallaratriði að okkar mati að hljóti afgreiðslu. Við vitum að mikil andstaða er við það í hópi minni hlutans hér. Ég held að væri eðlilegt að lýðræðislegur meiri hluti fengi bara að ráða því hvaða mál yrðu kláruð og við afgreiddum það eftir hefðbundnum leiðum.

Það er ekki fordæmislaust að við séum hér fram undir kosningar. Það er ekki lengra síðan en 2009, vorið 2009, að við vorum hér í þinginu þar til vika var í kosningar og þar var verið, af þáverandi meiri hluta, að bjóða upp á afgreiðslu mála eins og breytingar á stjórnarskrá á síðustu metrunum og breytingu á kosningalögum. Það er smámál í þeirra huga.