145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hér er ekkert eftir nema að slíta þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hér eru engin brýn mál eftir sem þarf að afgreiða. Það er búið að tæma dagskrána af öllum slíkum málum. Hæstv. forsætisráðherra taldi upp þau mál þegar hann óskaði eftir samvinnu um að ljúka þingi í sátt. Stjórnarandstaðan hefur tekið saman höndum við hann og aðra í stjórnarliðinu um að ljúka þeim málum. Hér eru engin mál eftir nema einungis örfá mál sem ráðherrar vilja nota til að reisa sér bautasteina, ráðherrar sem lifa vissir í þeirri trú að þeir eigi ekki afturkvæmt á ráðherrabekki. Það er eina ástæðan fyrir því að við erum hér.

Hæstv. formenn og ráðherrar frá stjórnarflokkunum sýna ekki einu sinni þinginu þann sóma að koma hingað til að ræða málin. Hæstv. forseti hefur áhuga á að ræða samgönguáætlun á eftir. Ég leyfi mér að spyrja: Hvar er hæstv. innanríkisráðherra sem við eigum að geta innt svara varðandi hana? Hvar er hún? Er hún ekki (Forseti hringir.) úti á landi? Til hvers eigum við þá að vera hér?