145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Auðvitað ætti ekki að vera þingfundur. Þegar ekki liggur fyrir hver framvindan verður er þetta óboðlegt og það vita allir. Þessi ríkisstjórn er kannski ekki búin að missa umboð sitt, þ.e. þingmennirnir, fyrr en 28. október en hún er rúin trausti. Hún er búin að vera það síðan í vor, þá algjörlega rúin trausti með þrjá ráðherra innan borðs tengda Panama-skjölunum. Við getum ekki horft fram hjá því að það er þess vegna sem við göngum nú til kosninga. Það er allt í lagi að fólk hafi það hugfast þegar það telur sig eiga eitthvert erindi að afgreiða fullt af málum sem geta vel beðið. Ef fólk hefur svona miklar efasemdir um að það komist aftur á ráðherrabekkina og til framkvæmdarvaldsins segir það bara miklu meira en ég get sagt hér að það treystir því ekki einu sinni sjálft að þjóðin treysti því til valda.

Virðulegi forseti. Hér eigum við að láta staðar numið, ganga út til kosninga og tala við kjósendur og tala við fólkið og sjá hverjum það felur traust sitt til að fara með framkvæmdarvaldið.