145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

dagskrá næsta fundar.

[15:37]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill trauðla trufla þann góða anda sem hér hefur [Hlátur í þingsal.] skollið á í þinginu og veit að það verður gott veganesti fyrir okkur til þess að ræða hér samgönguáætlun á eftir, væntanlega. (Gripið fram í.)

Eins og tilkynnt var á þingfundi áðan hefur forseta borist eftirfarandi dagskrártillaga sem er svohljóðandi:

„Við undirrituð gerum það að tillögu okkar, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. þingskapalaga, að dagskrá næsta fundar verði svohljóðandi:

1. Náttúruvernd, frv., 87. mál, þskj. 87, 2. umr.

2. Grunnskólar, frv., 104. mál, þskj. 104, 2. umr.

3. Fæðingar- og foreldraorlof, frv., 261. mál, þskj. 288, 2. umr.

4. Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, frv., 237. mál, þskj. 257, 2. umr.

5. Þjóðgarður á miðhálendinu, þáltill., 10. mál, þskj. 10, síðari umr.

6. Embætti umboðsmanns aldraðra, þáltill., 14. mál, þskj. 14, síðari umr.

Við óskum eftir því að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir þetta rita bréf rita hv. 9. þm. Reykv. s., Helgi Hjörvar, hv. 10. þm. Norðaust., Brynhildur Pétursdóttir, hv. 10. þm. Reykv. s., Ásta Guðrún Helgadóttir, og hv. 5. þm. Reykv. s., Svandís Svavarsdóttir.

Nú fer fram atkvæðagreiðsla um tillöguna, en áður en það gerist vill forseti vekja athygli á því að formgalli er á þessari tillögu og því er hún ekki tæk á dagskrá í ljósi þess að þau sex mál sem þarna eru tilgreind eru öll enn þá í nefndum, hafa ekki hlotið afgreiðslu til 2. umr. Engu að síður telur forseti eðlilegt að látið sé reyna á málið og telur þess vegna eðlilegt að um þessi mál séu greidd atkvæði þrátt fyrir þann galla sem á tillögunni er. (Gripið fram í.)