145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Mig langaði engu að síður að spyrja hana nokkurra spurninga. Sú fyrsta varðar ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan, þar sem hann nefndi, undir liðnum fundarstjórn forseta, að engin mikilvæg mál væru eftir. Er þingmaðurinn sammála þessari túlkun, t.d. að afgreiðsla samgönguáætlunar sé ekki mikilvæg? Ég hefði persónulega talið það afar brýnt og hef ekki fundið neitt annað og ég mundi virkilega vilja heyra afstöðu hennar til þessa álitaefnis.

Mér finnst líka skjóta skökku við að þingmaðurinn skuli kalla eftir hæstv. innanríkisráðherra þegar við erum fyrst og fremst að ræða álit frá meiri hluta og minni hluta sem eru hér fyrir þinginu. Innanríkisráðherra lagði samgönguáætlun fram í vor og þá fékk hún ítarlega umfjöllun. Það er meiri hlutinn fyrst og fremst sem stendur að þeim breytingartillögum sem hér eru til umræðu. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að við þingmenn séum með málið á okkar forræði og það sé okkar að leggja til breytingartillögur sem ég hef talið mjög ítarlegar? Ég tel þá aukningu sem hefur komið fram jákvæða fyrir samgöngumálin. Við erum að bæta rétt tæplega 12 milljörðum í þennan málaflokk á tveimur árum og í hinu stóra samhengi er um miklar fjárhæðir að ræða. Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir ræðuna áðan.