145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég neita því algjörlega að stjórnarandstaðan hafi verið hér í málþófi. (Gripið fram í.) Stjórnarandstaðan hefur ekki verið hér í málþófi, stjórnarandstaðan hefur verið að reyna að fá það á hreint nú þegar starfsáætlun þingsins er runnin út, tíminn er einfaldlega liðinn samkvæmt því plani sem við áttum að starfa eftir, og þá snýr það upp á hæstv. ríkisstjórn og formenn stjórnarflokkanna að koma og segja okkur hvað þeir leggi áherslu á að klára. Við erum ekki stödd bara einhvers staðar inni á þessum þingvetri. Við erum stödd örfáum dögum fyrir kosningar og þess vegna þarf þetta að liggja fyrir. Þó að ég vilji auðvitað að samgönguáætlun sé samþykkt veit ég í raun ekki hvort það skiptir öllu máli, úr því sem komið er, hvort það gerist á morgun eða eftir mánuð. Því miður er það bara svo að hér (Forseti hringir.) hafa góð tækifæri glatast í að setja peninga inn í vegakerfið og það má alveg spyrja sig: Er það kannski hlutverk nýrrar ríkisstjórnar að taka við því?