145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir þessa spurningu. Ég er hjartanlega sammála henni um að það er þetta sem við eigum að leggja áherslu á og ræða af fullri alvöru og þunga, þ.e. hvernig við getum staðið að orkuskiptum í samgöngum. Ég mundi halda að þetta sé einmitt atriðið sem hljóti að vera skynsamlegt að ræða í samstarfi við sveitarfélögin, hvernig þau geti komið að því að koma upp stöðvum og ræða til dæmis hvar sé þá réttast að byrja. Það eru kannski ekki líkur til þess að við getum komið upp stöðvum í hverju einasta sveitarfélagi á sama tíma, einhvers staðar þarf að byrja. Þá held ég að þetta samtal sé gríðarlega mikilvægt. Ég mundi halda að það væri einn af augljósu kostunum til þess að ræða.

Af því að við ræðum loftslagsmálin í tengslum við þetta þá langar mig að nefna hér í lokin, af því að ég kom því ekki að í ræðu minni áðan, að ekkert er minnst á samgöngur í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar kemur að samgöngumálum. Ég skannaði nú í gegnum, fór hreinlega í orðaleit, samgönguáætlun (Forseti hringir.) fyrir árin 2015 til 2026. Þar er ekki heldur neitt minnst á þetta. Það held ég að sé enn eitt atriði sem við verðum að taka inn í þegar við ræðum um samgönguáætlun, því að samgöngumál eru auðvitað eitt risastórt aðgengismál.