145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þær spurningar sem komu fram. Jú, sannarlega er það svo og e.t.v. hefði ég átt að gera þeim betur skil, en ég taldi að ég hefði gert það í fyrri ræðu, þ.e. tillögum minni hlutans sem ganga lengra, auka meira við. Ef tillögur meiri hlutans verða samþykktar, sem ég geri ráð fyrir og styð, er sannarlega þörf á því að taka tillögur minni hlutans líka vegna þess að þær m.a. fjalla um það sem við getum sagt að hafi verið vanrækt mjög á síðustu árum, m.a. á árunum sem mest var framkvæmt, þ.e. 2008, 2009, 2010, þar sem Íslandsmet voru slegin í samgöngumálum, að taka á því sem þá var vanrækt sem er viðhaldið. Í tillögu minni hlutans er gert ráð fyrir því að bæta 2,5 milljörðum kr. við það fjármagn sem á að veita árlega 2017 og 2018 til viðhalds.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, þá erum við að segja að núna þegar betur árar, og það var alltaf skilningur okkar stuðningsmanna síðustu ríkisstjórnar sem oft með óbragð í munni þurftum að skera niður hluti, þó svo að samgöngumálin hafi ekki lent þar inni út frá því sem ég hef áður sagt um metframkvæmdir, þyrfti þessi upphæð að koma inn, vegna þess að hér erum við að vinna upp nokkrar syndir. Það verður að segjast eins og er að við vorum meðvituð um það með ýmsar stórframkvæmdir á ýmsum svæðum sem heldur betur hafa styrkt innviði, tökum sem dæmi Vopnafjarðarleiðina, leiðin til Vopnafjarðar, þar sem 40, 45 kílómetrar voru boðnir út á einu bretti. Auðvitað má segja að það hafi verið að hluta viðhald. Það þarf ekkert viðhald á þann veg eftir að hann var byggður upp. En nú er komið að miklu meira viðhaldi, eins og hefur komið fram hjá fulltrúum Vegagerðarinnar við nefndina, þess vegna eru tillögur meiri hlutans um að auka um milljarð, en minni hlutinn vill ganga lengra. (Forseti hringir.)

Svarið er: Best færi á því að á þessum lokadögum rétt fyrir kosningar (Forseti hringir.) yrðu báðar tillögurnar samþykktar og þar með skilaði Alþingi góðu verki til Vegagerðarinnar til að vinna eftir árið 2017 og 2018.