145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að þetta sé einmitt það sem við hljótum að geta svo auðveldlega orðið sammála um, að það gengur auðvitað ekki að svo litlum peningum sé, að óbreyttu, varið í viðhald að vegakerfið okkar sé hreinlega að versna. Þess vegna er í mínum huga svo borðleggjandi að þingið á núna á þessum síðustu dögum, ef það á á annað borð eitthvað gera með þessa áætlun, að gera þetta almennilega, því að peningana þarf svo sannarlega í viðhaldið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem einnig kom fram í ræðu hans þar sem hann fjallaði ítarlega um mörkuðu tekjurnar. Mig langar að spyrja vegna þess að þetta eru sláandi tölur, hefðu mörkuðu tekjurnar verið hækkaðar væru þetta 7 milljarðar í viðbót sem við hefðum úr að spila til vegamála. Hefur hv. þingmaðurinn einhverja skýringu á því af hverju það hefur ekki verið gert? Geta verið lógísk rök fyrir því? Ég sé þau ekki og spyr þess vegna. Ég vil einnig spyrja: Verður ekki jafnframt að tryggja að mörkuðu tekjurnar verði látnar renna óskiptar til vegamálanna og (Forseti hringir.) fari ekki í eitthvað annað?