145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kemur hv. þingmaður inn á meginatriðið sem við ættum að ræða einna mest um, þ.e. um tekjuöflunina. Þar á eftir mundum við takast á um að skipta því. Sitt sýnist hverjum um það og yrðu ekki vandræði við það.

Varðandi mörkuðu tekjurnar, sem ég gerði aðeins skil í ræðu minni áðan, bendi ég þingmönnum sem hér hlusta á bls. 28. Þar stendur að reiknað er með að gjaldskrár markaðra tekna verði hækkaðar a.m.k. í takt við útgjöld. Reiknað er með því, það hefur ekki verið gert. Þingmaðurinn spyr mig: Af hverju hefur það ekki verið gert? Ég held að það sé gert vegna þess að við fjárlagagerð hækka menn þetta í samræmi við verðlag. Þá hækka menn þann hluta sem rennur beint í ríkissjóð en sleppa hlutnum sem á að koma til Vegagerðarinnar, bæði til nýbyggingar og viðhalds og þjónustu. Ætli svarið við því sé ekki eingöngu að menn eru þar að horfa í hækkun vísitölu neysluverðs. Auðvitað hefur þetta áhrif þar inn. En af hverju hefur ríkissjóður sem hefur verið að bólgna út af tekjum, m.a. út af ferðamönnum, sem er fjallað um í minnihlutaálitinu, og tekjum af þeim, af hverju hefur því ekki verið skilað þarna inn? Ég held að þetta sé svarið.

Það er líka dálítið merkilegt sem kemur fram, að á undanförnum árum hafa markaðar tekjur ekki hækkað í takt við verðlag. Ef þær hefðu gert það værum við með 7 milljörðum kr. meira í framkvæmdafé og hefðum verið með þessi ár. Þá værum við ekki að fjalla um að það þyrfti að gera tillögur eins og við erum að gera núna, vegna þess að þá væri þetta búið að vera miklu lengur.

Virðulegi forseti. Það má nefna hið fallega og mikla rit sem Vegagerðin hefur gefið út í mörg ár og heitir Framkvæmdafréttir sem fjallar um ýmislegt sem verið er að gera, tilkynnt um fyrirhuguð verk, talað um hannanir og svo eru útboð. Í ár, núna í október, (Forseti hringir.) er þetta 9. tölublað. Ég man þá tíð þegar mikið var gert í samgöngumálum og tölublöðin voru svona 25 á árinu. Tölublaðafjöldinn segir kannski allt (Forseti hringir.) um hversu lítið hefur verið gert undanfarin ár.